149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:57]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir andsvarið. Það er furðu oft í þessu starfsumhverfi okkar þingmannanna að hljóð og mynd fer ekki saman og í þessu tilviki er það raunin. Ég gerði mér far um að hlusta á obbann af þeim ræðum sem voru fluttar í umræðu um bætta stöðu garðyrkjunnar í byrjun dags í gær, (Gripið fram í: Í fyrradag.) — í fyrradag er það væntanlega orðið, einmitt — það er bara eitthvert rof þarna á milli skynjunar á stöðu mála, að sömu þingmenn geti haldið þær ræður sem þar voru fluttar, margar hverjar, en eru síðan alveg fyrirvaralaust áfram um innleiðingu þessa þriðja orkupakka þrátt fyrir m.a. umsagnir Sambands garðyrkjubænda. Og staðreyndin er sú, ég er svo sem ekki búinn að telja, ég hef þetta eftir minni, að meiri hluti umsagna um málið er neikvæður. Umsagnaraðilar um málið eru stór fyrirtæki, hagsmunasamtök, stofnanir, einstaklingar, þannig að það er öll flóran.

Meiri hlutinn, held ég treysti mér til að segja, er með miklar eða mjög miklar efasemdir um málið. Það er mjög skrýtið að horfa á hópinn, þingflokka ríkisstjórnarflokkanna þriggja sem meira og minna allir voru andsnúnir þessu fyrir ekki löngu síðan, en ekki kemur á óvart að Samfylkingarflokkarnir þrír séu fylgjandi málinu, við því var að búast, (Forseti hringir.) en að stuðningsmenn ríkisstjórnarflokkanna sem töluðu með þeim hætti sem þeir gerðu, (Forseti hringir.) séu það og styðji málið, það er mjög athyglisvert.