149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:59]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, í sjálfu sér er það makalaust að menn skuli taka þennan pól í hæðina og af þeirri ástæðu einni, þ.e. af afleiðingum fyrir garðyrkju og fleiri fyrirtæki, held ég að menn ættu að hafa komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé ekki þess virði, að það sé betra að hugsa sig um, taka sér tíma til umhugsunar og fara betur ofan í málið, gaumgæfa það betur, leita meiri upplýsinga og eins og hér hefur komið fram í þessari umræðu, að gera almennilega úttekt á fjárhagslegum afleiðingum þess fyrir land og lýð að taka þetta inn með þeim hætti sem við gerum. En eins og fram hefur komið í umræðunni að þar sem þetta er þingsályktunartillaga þá þarf ekki kostnaðarmat. Þetta er öðruvísi en með lagafrumvarp vegna þess að þar þarf kostnaðarmat. En í þingsályktunartillögu um þetta risavaxna mál þarf ekki kostnaðarmat.

En ég ætlaði að spyrja hv. þingmann hvort hann væri mér ekki sammála um að það (Forseti hringir.) væri betra að fara sér hægt í þessu máli, taka sér tíma til að gaumgæfa það og gera fjárhagslega úttekt.