149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:01]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Ég held að það væri mikið til þess vinnandi að við tækjum eitt, tvö skref til baka og gæfum okkur svigrúm til að gaumgæfa málið betur.

Það er nú þannig að hæstv. iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, lýsti því yfir fyrir ekki löngu síðan að hún sæi fyrir sér að málið gæti dregist fram á haustþing 2019. Þegar ráðherra málaflokksins, sem sagt annar þeirra ráðherra sem fer með málið sem fellur undir þriðja orkupakkann, talar með þeim hætti er orðið alveg augljóst að menn eru ekki í neinu tímahraki. Tjaldið er fallið um leið og yfirlýsing sem þessi kemur fram. Tímahrakið er ekki til staðar. Það sem virðist hafa keyrt málið áfram er að ríkisstjórnarflokkarnir hafi talið illu best af lokið. Þannig horfir það við mér, því miður.