149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:15]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Hér hefur nokkuð ítarlega verið farið yfir það að í þessu felist lögfræðileg óvissa. Hún felst einmitt í því að ef við innleiðum pakkann að fullu geti falist í því stjórnarskrárbrot vegna þess að íslenska stjórnarskráin hreinlega heimili ekki slíka innleiðingu, hún heimili okkur ekki að gera það sem í innleiðingunni felst, að framselja vald að því marki sem þar greinir.

Hv. þingmaður talaði um fjöreggið og ég held að við séum alveg klárlega að tala um fjöregg þegar við tölum um orkuauðlindir okkar Íslendinga, alveg eins og aðrar auðlindir, og þá verð ég að minnast á það hér eina ferðina enn að þegar við höfum verið í þeim sporum áður, eins og hvað varðar fiskimiðin okkar, veiðar og vinnslu, settu forvígismenn okkar, sem þá áttu sæti á Alþingi, það inn í g-lið 1. töluliðar XII. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið að Íslandi væri heimilt að beita áfram höftum sem eru í gildi við undirritun samnings um eignarrétt erlendra aðila og/eða eignarrétt aðila sem ekki eru búsettir á Íslandi á sviði fiskveiða og fiskvinnslu, þ.e. af því að þarna varðaði þetta gríðarlega mikla og mikilsverða hagsmuni okkar Íslendinga sem við höfum barist fyrir í stríðum settum við það sérstaklega inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (Forseti hringir.) enda hefur aldrei verið nokkur vafi á því að þessi viðauki myndi halda.