149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:19]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni kærlega fyrir andsvarið. Jú, stjórnarskrá okkar Íslendinga er þannig úr garði gerð að hún heimilar ekki með berum orðum að framselja slíkt vald. Eins og tekið er fram í greinargerð þeirra félaga er hún þögul um þessar heimildir og þá ber að líta svo á að valdframsalið sem í þessu felst sé í trássi við stjórnarskrá. Því hefur verið lýst hér af hálfu starfsfólks utanríkisráðuneytisins í samtölum í hliðarherbergjum að þeim fyrirvörum sem ég fór yfir í ræðu minni, eða ræðum, sé ætlað að setja undir lekann í þeim stjórnskipunarvanda að innleiða án þess að brjóta stjórnarskrána.

Það verður bara trauðla séð að þau lagarök sem þar er beitt haldi vatni. Það er alveg rétt að ef maður er með óskilgreint vald er enginn rammi utan um það hvar það byrjar og hvar því lýkur. Þeir fara einmitt inn á það, félagarnir, í sinni álitsgerð að þetta vald sé ekki skýrt afmarkað, þ.e. það má áætla að það gangi lengra en tiltekið er nákvæmlega í þeim orðum sem felast í téðum reglugerðum.