149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:26]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Mig langar aðeins að beina sjónum að því hvert sambandið sé í raun og veru á milli innleiðingar orkupakka þrjú, tilskipunar Evrópusambandsins, sem við hér ræðum og afkomu almennings. Með orkupakka þrjú verðum við Íslendingar skyldugir til þess að taka upp markaðskerfi Evrópusambandsins hvað raforku varðar þótt það henti engan veginn íslenskum aðstæðum, eins og t.d. Vinstri grænir lögðu áherslu á í sinni umræðu þegar orkupakki eitt og tvö voru innleiddir, og það var rík áhersla Vinstri grænna að þetta hentaði engan veginn íslenskum aðstæðum. Þess vegna kemur það náttúrlega verulega á óvart að þessi sami flokkur, þessir sömu stjórnmálamenn, hæstv. forseti, Steingrímur J. Sigfússon, og fleiri skuli núna ætla að keyra þetta mál í gegn. Það vekur bara furðu, herra forseti, ef ég má orða það þannig.

En þessi leið, að fara að innleiða þetta í umhverfi sem hentar ekki, er mjög líkleg til að valda óstöðugleika þegar kemur að verðlagi, jafnvel hættu á orkuskorti og hærra meðalverði þegar kemur að ýmsum þáttum er lúta að raforku. Þetta lýtur að sjálfsögðu að þjóðarhagsmunum. Ef við skoðum það nánar er kjarninn í þessu sá að stjórnvöld mega ekki skipta sér af því hvernig flæði orkunnar kemur til með að vera þegar sæstrengur verður kominn. Innlend fyrirtæki lenda í beinni samkeppni um raforkuna við fyrirtæki í Evrópusambandinu vegna þess að orkan verður seld þeim sem bjóða hæsta verðið. Það er bara lögmál framboðs og eftirspurnar. Við erum því að horfa á að íslenskur iðnaður og íslensk fyrirtæki þurfa að fara að keppa við fyrirtæki í Evrópu um raforku. Við sjáum öll hvert það getur leitt okkur. Síðan hafa stjórnvöld í raun og veru engin úrræði til að reyna að stýra því.

Þetta er eiginlega má segja svona vogunarspil eins og sagt er, og það er gríðarleg áhætta fólgin í því, að mínu mati, að treysta því að bann við að hér verði lagður sæstrengur haldi yfir höfuð gagnvart Evrópurétti og síðan verður bara mikill þrýstingur frá þessum hagsmunaaðilum sem vilja selja orkuna og eru að fara í framleiðslu, virkjunarframkvæmdir, uppsetningu á vindmyllugörðum o.s.frv. Það verður mikill þrýstingur frá þeim aðilum að stoppa það ekki að lagður verði sæstrengur.

Það eru því svo margir óvissuþættir í þessu. Með þessum orkupakka erum við að taka mjög mikla áhættu hvað varðar afkomu almennings. Ég held að það sé nokkuð ljóst. Þetta er hins vegar barið áfram, ef svo má að orði komast, með þeim rökum að miðstýring orkumála sé nauðsynleg til að ná tökum t.d. á loftslagsvánni. Þá er náttúrlega verið að hugsa fyrst og fremst um Evrópu vegna þess að þeir hafa mikla þörf fyrir þessa hreinu orku sem við höfum. Ég held einmitt að Evrópusambandið leggi svo mikla áherslu á þetta vegna þess að það hentar þeim. Þá erum við komin að því að við og afkoma almennings á Íslandi verður í öðru sæti í þeim efnum.