149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:47]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Enda hafa einmitt komið fram í umsögnum sem hafa borist utanríkismálanefnd, t.d. frá Hagsmunasamtökum heimilanna, frá Sambandi garðyrkjubænda og frá ASÍ, ótti eða áhyggjur manna af því hvaða áhrif þessi innleiðing muni hafa. Þess vegna finnst manni það orka mjög tvímælis, eigum við ekki að orða það kurteisislega, að ekki skuli hafa verið gerð einhver úttekt á afleiðingunum hjá þeim sem eiga að borga brúsann af þessari innleiðingu, sem eru einmitt fyrst og fremst minni fyrirtæki og heimilin í landinu. Og er það í sjálfu sér þessi skortur á því að reikna þetta út og hafa þetta á hreinu.

Getur hv. þingmaður verið sammála mér í því að bara þetta atriði sé nóg ástæða til að taka þetta mál til hliðar, fresta því til haustsins, fara betur yfir þessi atriði, þ.e. áhrif á þolendur í málinu og komast að því með ábyggilegum hætti hvaða áhrif þetta muni hafa? Vegna þess að ef þetta hækkar orkuverð til bæði fyrirtækja og fjölskyldna mun það í sjálfu sér líka spenna upp verðbólgu því að hækkun orkuverðs mun fara út í verðlag, það mun hækka verðtryggingu o.s.frv. Ríkisstjórnin dregur lappirnar í því að henda húsnæðisliðnum út úr verðtryggingarútreikningunum o.s.frv. Er ekki fullkomin ástæða til að leggja þetta mál til hliðar af þessari ástæðu einni?