149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:51]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Þegar ég fór að hugleiða efni þessarar ræðu minnar stóð valið eiginlega um tvennt, annars vegar að fara gaumgæfilega yfir þau áhrif sem innleiðing þriðja orkupakkans gætu haft í framtíðinni varðandi uppskipti á Landsvirkjun. Þetta atriði mun ég örugglega taka fyrir í ræðu. En það var hins vegar annað sem mig langar að minnast á, ekki síst núna í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað hér í kvöld og nótt, þ.e. kynningin á þessu máli, sérstaklega gagnvart almenningi og öðrum haghöfum eða hagsmunaaðilum, t.d. fyrirtækjum, garðyrkjubændum o.fl.

Af því að hv. þm. Birgir Þórarinsson vitnaði í orð formanns utanríkismálanefndar um að öllum spurningum hefði verið svarað, þá er það samt þannig að sá sem hér stendur hefur lagt fram nokkrar spurningar sem ekki hafa fengist svör við. Þær spurningar sem undirritaður lagði fram lúta að kostnaði utanríkisráðuneytisins vegna innleiðingar orkupakka þrjú.

Eins og við öll vitum varð uppi fótur og fit í utanríkisráðuneytinu, menn flugu hingað heim erlendum sérfræðingi, Íslandsvini sérstökum, sem var sendur hingað til Íslands til að hræða okkur með Evrópusambandinu. Ég er sem sagt búinn að leggja fram fyrirspurn um hvaða kostnaður hefur orðið af innleiðingu þessa pakka af álitsgerðum, innlendum og erlendum, hvernig sá kostnaður skiptist, og síðan af almennum kynningarkostnaði.

Eins og allir vita hefur hæstv. utanríkisráðherra ferðast nokkuð um landið til að kynna þetta mál. En hann hefur verið að kynna málið nánast eingöngu og eingöngu, ef ég þekki það rétt, fyrir innmúruðum og innvígðum Sjálfstæðismönnum. Í sjálfu sér er ekki gott að henda reiður á hvort hæstv. ráðherra var að kynna orkupakka þrjú eða utanríkisráðherrann sjálfan, svona í ljósi ástandsins innan flokks í Sjálfstæðisflokknum. Það vitum við ekki um.

Þess vegna fannst mér óhjákvæmilegt að leggja fram fyrirspurn um það hvað t.d. þessi kynningarferðalög utanríkisráðherrans um landið, til að kynna orkupakkann, hafa kostað.

Við verðum að vita um alla þætti þessa máls. Þess vegna er nauðsynlegt að komast að því, fyrir utan það að væntanlega koma fram í svarinu við þeirri fyrirspurn sem lögð hefur verið fram einhverjar upplýsingar um hvernig þeirri kynningu var háttað. Við höfum verið að halda því fram hér, byggt á tilfinningu og öðru, að kynning fyrir almenning hafi verið algerlega ónóg. Við sjáum það ekki síst á því hvað almenningur veit um þetta mál. Auðvitað er það skiljanlegt að fólk sem er ekki innviklað í málið, ef ég get orðað það þannig, skilji ekki til hlítar í hverju málið felst og um hvað það snýst.

Ég verð að segja að það hefur líka komið í ljós að ýmsir hv. þingmenn hafa náttúrlega komið fram með þvílíkar yfirlýsingar í málinu að mjög greinilegt er að þar hafa menn ekki kynnt sér málið til hlítar og eiginlega í sumum tilfellum að litlu gagni.

Það er til vansa að innleiða mál af þessari stærðargráðu án þess að þjóðinni, sem borgar brúsann og þetta bitnar á, ef ég get orðað það þannig, sé gerð grein fyrir því um hvað það snýst, hver aðalatriði málsins eru og það sé kynnt til hlítar. Þess vegna hljótum við að þurfa að krefjast þess, og það kemur væntanlega í ljós þegar ég fæ þessum spurningum svarað frá utanríkisráðherra, þá fáum við vonandi gleggri mynd af því hvernig þetta (Forseti hringir.) mál hefur verið kynnt fyrir almenningi og þá væntanlega jafnvel grundvöll til að (Forseti hringir.) við getum farið fram á það að meiri kynning fari fram.