149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:57]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni kærlega fyrir ræðuna, sem var mjög góð vegna þess að hún kemur svolítið inn á þetta. Af hverju í ósköpunum er allt þetta vantraust sem okkur Miðflokksmönnum hefur verið kennt um að valda, meira en nokkrum öðrum?

En það vakti einmitt einnig athygli mína að utanríkisráðherra, sem á kjördæmi á suðvesturhorninu, varði talsverðum tíma í að ferðast innan lands til að kynna þennan orkupakka og einkum og sér í lagi var hann að hitta flokksbræður sína, flokksbundna Sjálfstæðismenn, sem eru af þeim meiði að þeir sem eru í flokksstarfi og eru flokksbundnir eru gjarnan fólk sem fylgist mjög mikið með þjóðmálaumræðu og hefur jafnvel mjög sterkar skoðanir á stjórnmálum og er af þeim sökum oft meira inni í slíkum málum. Það er ekki eins og verið sé að kynna þetta fyrir fólki sem ekkert veit eða kynni sér lítið málin en hefur þó áhuga á að fá kynningu ef boðið er upp á hana.

Er það ekki bara svo að þetta mál hefur kannski vísvitandi ekki verið kynnt nægjanlega fyrir almenningi í ljósi þess hversu gríðarlega stórt og mikilsvert það er íslenskum borgurum?