149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:02]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég verð að segja að þessar tölur eru náttúrlega nokkuð sláandi, ekki síst í ljósi þess að fylgi þeirra flokka sem eru fylgjandi þessum pakka, ef við lítum á kjörfylgi, er umtalsvert meira en sem þessu nemur, þessum 63%. Þetta er eins og fyrrverandi þingmaður, Ögmundur Jónasson, sagði að þetta er greinilega mál sem gengur þvert á flokka og flokkspólitískar skoðanir. Þessi 63% tala vekur athygli, en einnig vekur 70% talan athygli, 70% þeirra sem komu fyrir hv. utanríkismálanefnd voru mótfallin innleiðingu pakkans eins og hann kom mönnum fyrir sjónir.

Maður verður að spyrja sig að því að þeir sem töldu sig hafa kynnt sér pakkann mjög vel voru jákvæðari. En hvaða gögn hefur fólk haft í höndunum til að kynna sér pakkann mjög vel? Hefur pakkinn verið kynntur fyrir fólki og hefur hann verið kynntur fyrir fólki á þann hátt sem við höfum upplifað, kynningu þeirra sem eru fylgismenn pakkans hér á Alþingi? Við höfum aldeilis gert athugasemd við þá kynningu. Hefur það verið mjög góð kynning? Hefur hún verið djúp eða hafa gögn verið greind eða rýnd á þann hátt að við getum sagt að sómi sé að?

Mig langar til að spyrja hv. þingmann í hverju hann telji að þessi kynning þeirra sem tjáðu sig í þessari könnun hafi falist og hvort hún hafi að einhverju leyti verið af hálfu opinberra aðila?