149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:09]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er öndvegisspurning sem hv. þingmaður lagði fyrir mig og ég þakka fyrir hana. Ég hef á tilfinningunni að drjúgur tími ráðherranna tveggja sem bera fram þetta mál að mestu leyti hafi farið í að sannfæra þingflokkinn sinn. Svo hefur staðið bunan upp úr ýmsum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, hverjum á fætur öðrum, sem sögðu: Ég var algjörlega á móti þessu máli en nú er ég frelsaður. Við vitum ekki hvernig það fór fram, en hjá forystumönnum ríkisstjórnarinnar virðist mikil orka og mikill tími hafa farið í, ef ég segi það bara á íslensku, að lemja liðið saman þannig að það gengi í takt. Þegar öll þessi orka er farin bara í það að lemja liðið saman svo það gangi í takt, sinna innvígðum og innmúruðum trúnaðarmönnum hér og hvar um landið, er kannski engin orka eftir til að sinna almenningi í landinu, jafnvel ekki almennum flokksmönnum í hverjum og einum flokki.

Þetta á kannski ekki við um Vinstri græn sem við höfum verið í stappi við og orðaskaki í þinginu vegna þess að þeir vilja markaðsvæða orkulindirnar eða þá Framsóknarflokkinn sem er í smekkbuxum og nýjum skóm og með álímdan hártopp og belti og axlabönd. Öll þessi lýsing virðist ekki duga heldur fyrir t.d. Framsóknarflokkinn vegna þess að meiri partur flokksmanna hans virðist vera þver á móti þessum pakka.

Eins og ég segi hefur mikil orka farið í bara nánasta baklandið, bara til að halda ríkisstjórninni í (Forseti hringir.) sjálfu sér á kili. Þá er ekki mikil orka eftir í alla aðra.