149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:11]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir svarið. Það tekur á og er tímafrekt að smala villiköttum, eins og fyrrverandi forsætisráðherra lýsti því í ríkisstjórninni 2009–2013. Því fer mjög fjarri að ég ætli að líkja þeirri kattasmölun við það sem á sér stað hjá stjórnarflokkunum núna og aldrei myndi ég lýsa þingflokki Sjálfstæðisflokksins með þeim hætti. Þar er reynslan og aginn það mikill að menn haga sér ekki með þeim hætti.

En einmitt þess vegna er svo athyglivert hvernig mál þróuðust þar innan dyra frá því að stór hópur þingmanna var alveg þver í málinu og fann því allt til foráttu yfir í það að drjúgur hópur, að því er virðist, skrifaði sömu greinina með nokkrum smávægilegum breytingum, en efnislega sömu greinina, sem virtist hafa það hlutverk að vera haldreipi þegar kom að rökræðum við eigið bakland til að vísa í, eða hanga í réttara sagt, og grípa til.

Ég hef ekki haft á tilfinningunni að það sé mikil sannfæring, a.m.k. ekki í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, fyrir því að málið sé gott eins og það er. Menn láta það hins vegar yfir sig ganga, það er eins og gengur.

En mig langaði að spyrja hv. þm. Þorstein Sæmundsson út í eitt. Hann er kunnugur staðháttum frá fyrri tíð í Framsóknarflokknum og mér hefur þótt svo athygliverður snúningur þess þingflokks í þessu máli frá því að vera í heild sinni þver á móti (Forseti hringir.) yfir í það að vera algerlega grjótharður með.