149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:13]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er mjög athyglisverð skýring. Svo ég klári Sjálfstæðisflokkinn fyrst, verandi utanbúðarmaður og ekki þekkjandi vel til, minntu alltaf sinnaskipti þeirra þingmanna sem voru alveg þverir á móti yfir í það að vera harðir með mig eiginlega á áður- og eftirmynd af auglýsingu fyrir flösusjampó, menn voru frekar fúlir og upplitslitlir áður en þeir prófuðu eitthvert nýtt sjampó sem kláraði flösuna og síðan gengu menn borginmannlegir um á eftir. Þetta minnti mig svolítið á það.

Hvað Framsóknarflokkinn varðar hefur mér virst, og ekki bara hefur mér virst, ég hef sannfæringu fyrir því, sem núverandi forysta flokksins sé hvorki stefnuföst né með miklar hugsjónir í farteskinu eða mikla sannfæringu. Sú lýsing sem ég beitti hér, í fyrrakvöld held ég, reitti einn hv. þingmann þess flokks til reiði þar sem ég sagði að flokkurinn hefði verið og væri í þessu máli eins og hundur sem eltir skottið á sér. Ég held að ég eigi ekki betri lýsingu. Ég segi þetta líka með fyrirvara um að hundurinn virðist hafa staðnæmst á einhverjum ákveðnum stað, en það er ekki búið að greiða atkvæði um þetta mál þannig að við vitum ekkert hvort þetta kemur til með að breytast.

En í sjálfu sér var kannski eitthvað tvennt sem breyttist, og gáum að því að þar er líka bara verið að vinna í þingflokknum, þetta breyttist með tveimur pistlum sem formaður flokksins birti, fyrst um að ekki væri búið að ræða þetta nógu vel við þjóðina — það hefur ekki breyst enn þá — og þetta áttu að vera einhver varnaðarorð og einhverjir hafa örugglega haldið, svo sem baklandið, að nú ætti eitthvað að gera. Svo bara dó það út og menn sögðu: Já, (Forseti hringir.) við bara gerum þetta. Þetta lýsir tilvist þess flokks um þessar mundir.