149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:16]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég ætla að halda áfram enn um sinn með ræður sem ég ætla að skilgreina undir flokkinn: Og hvað svo? þ.e. hvaða áhrif innleiðing þriðja orkupakkans hefur annars vegar núna strax við innleiðingu gangi hún eftir og síðan aftur við þegar sæstrengur hefur verið lagður.

Mig langar til að vekja athygli á sjónarmiðum og umsögn Landssambands bakarameistara. Núna er ég í rauninni að fara í gegnum þann hluta sem snýr að áhyggjum markaðsaðila af verðþróun og markaðsaðstæðum heilt yfir hvað rekstrarskilyrði varðar. Landssamband bakarameistara sendi hv. utanríkismálanefnd ítarlega umsögn, tvískipta, annars vegar samantekin sjónarmið og hins vegar lengri greinargerð sem er mjög áhugavert að lesa í gegnum. Þarf enginn að velkjast í vafa um áhyggjur þessara hagsmunasamtaka af starfsskilyrðum bakara á landinu.

Ég ætla að fá, með leyfi forseta, að vitna stuttlega til ákveðinna atriða í umsögninni þar sem Landssamband bakarameistara byrjar á að lýsa hver áhrif af 2003 gildistökunni á raforkulögum voru. Með leyfi forseta, segir:

„Við breytingar á orkulögum var þeim samningum einhliða rift“ — þ.e. samningum um ódýrara rafmagn á álagsminni tímum sem bakarí höfðu notið fram að því — „við það hækkaði raforkuverð til bakaría um allt að 50% og laskaði starfsumhverfi og dró verulega úr samkeppnishæfni þar sem hækkunin óhjákvæmilega hækkaði vöruverð. Þessi ákvörðun á breytingu raforkuverðs var andstætt vilja stjórnvalda, á þeim tíma, um að lækka verð á matvælum og hvatningu orkusala til að koma til móts við óskir bakara um að leita leiða til að lækka orkuverð. Staðhæfingar stjórnvalda síðustu misseri um að þessi breyting með markaðsvæðingu íslensks orkumarkaðar hafi leitt til lægra raforkuverðs eru rangar. Í þessu samhengi er hægt að benda á 5–8% hækkun á milli áranna 2015–2016.“

Landssamband bakarameistara heldur áfram, með leyfi forseta:

„Þriðji orkupakkinn snýr einna helst að flutningi og sölu raforku á milli landa. Á það hefur verið bent að með innleiðingu tilskipunarinnar muni það hafa lítil sem engin áhrif hér á landi þar sem Ísland sé með einangrað raforkukerfi sem ekki er tengt við Evrópu. Sú einangrun er engin trygging fyrir því að Ísland muni ekki tengjast innri orkumarkaðnum í framtíðinni með lagningu sæstrengs. Með lagningu sæstrengs er ljóst að innleidd yrðu ný markaðslögmál sem myndu að óbreyttu hækka raforkuverð umtalsvert. Í því samhengi er vert að benda á að niðurstöður starfshóps iðnaðarráðherra frá árinu 2016, sem var meðal annars falið að greina þjóðhagsleg áhrif af lagningu sæstrengs, voru meðal annars þær að með lagningu sæstrengs myndi raforkuverð á Íslandi hækka umtalsvert. Í skýrslunni er tekið fram að meira en helmingur þeirrar kostnaðarhækkunar sem kæmi til yrði borinn af þeim hópum sem eru stærstu raforkunotendur fyrir utan heimili og stóriðju. Raforkuverð til iðnaðar, annars en stóriðju, myndi samkvæmt útreikningum hækka um helming.“

Það munar um það hjá fyrirtækjum sem nota drjúgt rafmagn. Landssamband bakarameistara endar umsögn sína á því að segja, með leyfi forseta:

„Landssamband bakarameistara telur að innleiðing þriðja orkupakkans muni leiða til hækkunar á raforkuverði og þar af leiðandi veikja samkeppnisstöðu bakara sem og íslensks iðnaðar. Því leggst Landssamband bakarameistara alfarið gegn því að þriðji orkupakkinn verði innleiddur á Íslandi.“

Eins og sjá má á mér þykir mér snúðar og annað kruðerí gott og ég ber hagsmuni bakarastéttarinnar fyrir brjósti, og ég veit að fleiri gera það hér inni. Ég held að við verðum að hlusta af svona bærilega mikilli sanngirni á sjónarmið stétta og hópa sem eiga mikla hagsmuni undir í þessu máli. Landssamband bakarameistara talar mjög skýrt um þá hættu sem þeir telja vofa yfir eigin samkeppnisstöðu á þeim markaði sem þeir starfa á.