149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:22]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir ræðuna. Mér finnst hv. þingmaður koma inn á mjög mikilvæga punkta hér. Við erum að tala um hinar vinnandi stéttir, umsagnir frá þessum venjulega Íslendingi, þ.e. þeim sem vinna og þeim sem reka lítil og meðalstór fyrirtæki, sem eru burðarásinn í efnahag Íslands, það eru þessir aðilar. Hér fyrr í morgun hélt hv. þingmaður aðra ræðu sem fjallaði að meginefni til um umsögn Félags garðyrkjubænda. Ég kem frá svæði sem kallað er heitt svæði og þar er talsverð ylrækt. Ég ræddi við garðyrkjubónda sem notar lýsingu í sinni ylrækt en mjög lítið miðað við aðra sökum þess hvað hann ræktar. Hann borgar sem sagt heimilistaxta af því að hann er ekki nógu stór notandi. Í hans tilfelli er raforkan um 40% af heildarkostnaði við framleiðslu á því sem hann ræktar. En þeir sem eru stærri notendur og nota lýsingu mjög mikið eru að borga, að mér skilst, um 20% af framleiðslukostnaði í raforku, þ.e. fyrir orkuna, dreifingu og flutning.

Mig langar að varpa því til hv. þingmanns hvort hann telji ekki, þar sem ég veit að hann þekkir vel (Forseti hringir.) til rekstrarumhverfis fyrirtækja, að þetta sé nokkuð hátt hlutfall kostnaðar og hvort menn megi við því að bætt sé í.