149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:24]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki er líklegt að aðilum sem standa í fyrirtækjarekstri, og horfa til þess að útgjaldapóstur sem liggur á bilinu 20–40% af heildarútgjöldum geti hækkað um allt að helming, sé rótt á meðan slík breyting á rekstrarumhverfi gengur yfir. Það er líklegt að það fari langleiðina með að slá marga af, myndi ég halda. Það er ekki á vísan að róa með að menn geti velt út í verðlagið kostnaðarauka eins og þarna er um að ræða. Það eru ekki allir sem standa í rekstri sem er eins og sá sem við þingmenn stöndum að einhverju marki í, í tengslum við skattheimtu og ákvörðun þar um, þ.e. að þegar eitthvað vantar í budduna þá seilast menn bara til þess að hækka skattana. Þannig virkar það ekki í almennum rekstri fyrirtækis. Þegar þú ert með útgjaldapóst sem er, eins og ég segi, 20–40% af heildarútgjöldum, og sérð fram á verulega hækkun, þá er það bara högg á reksturinn sem skiptir gríðarlegu máli. Menn eiga ekki að taka því af einhverri léttúð, umræðu um slíkt, og segja bara: Í þessum pakka er ekki neitt, þetta hefur ekki áhrif á neitt. Þetta mun sennilega bara lækka raforkuverð, segja grínararnir. Þetta er auðvitað ekki boðleg umræða.

Ég held að þeim aðila sem hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson vísar til þarna, sem finnur sig í þeirri stöðu að vera með um 40% af útgjöldum sínum tengdum ylræktinni til raforkukaupa, hljóti að vera mjög órótt með þá innleiðingu sem hér er yfirvofandi og þá breytingu á rekstrarumhverfi sem honum verður boðið upp á í kjölfarið.