149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og tel mjög athyglisvert að gegnsæið og neytendaverndin skuli ekki vera nefnd á nafn í þingsályktunartillögunni. Hins vegar halda hv. þingmenn þessu á lofti eins og þetta sé gríðarlega mikilvægt atriði í þessu öllu saman, í innleiðingu þessa orkupakka. Kjarni málsins er sá að hér höfum við tvo hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins halda fram staðreyndum — og reyndar fleiri þingmenn, ég hjó eftir því að formaður utanríkismálanefndar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, hélt þessu mjög á lofti, bæði í fjölmiðlum og í nefndinni — um að neytendaverndin sé svo rík, að hægt sé að skipta um orkusala. Svo sjáum við að það eru 0,3% heimila í landinu sem nýta sér þetta úrræði, sem þýðir náttúrlega að enginn ávinningur er af því að skipta um orkusala.

Ég held að menn verði að átta sig á því að þeir þurfa að koma heiðarlega fram þegar þeir eru að rökstyðja mál sitt og gagnrýna þá aðra í leiðinni.

(Forseti (WÞÞ): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða tímamörk.)