149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:36]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir hans ágætu ræðu hér áðan. Hann var að tala um umsagnir og nefndi umsögn Landssambands bakarameistara. Ég ætla að beina spurningu minni til hans varðandi einmitt þær umsagnir. Ég renndi nú yfir þessar umsagnir fyrir nokkrum dögum og brá mér inn í efni sumra þeirra en þó ekki allra.

Ég ætla ekki að fullyrða um afstöðu hvers umsagnaraðila fyrir sig. Í grófum dráttum má skipta umsögnunum í fjóra flokka. Einstaklingar eru fjölmargir og allflestar eða langflestar umsagnir einstaklinga í þessu máli eru neikvæðar, afar neikvæðar sumar hverjar. Síðan eru það raforkutengd fyrirtæki sem mörg hver eru opinber en þó ekki öll. Þau skiptast í tvo hópa en opinberu raforkufyrirtækin eru yfirleitt fremur jákvæð. Síðan má segja að það séu stofnanir oft á vegum ríkisins; þó nokkuð margar og flestar eru jákvæðar út í það mál sem við ræðum hér. Loks má ræða um sveitarfélög sem eru nokkur og þau gjalda mikinn varhug við þessu, mikinn.

Ég beini þeirri spurningu til hv. þingmanns, t.d. um Landssamband bakarameistara, hvort hann sjái einhverja tilhneigingu í þessum umsögnum og þá hjá fleirum en Landssambandi bakarameistara.