149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:49]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir ræðuna og fyrir að taka upp þá stöðu sem hér er varðandi forgangsröðun mála og annað af því tagi. Það eru sannarlega ákaflega brýn mál sem bíða. Hann nefndi fjármálaáætlun, sem er knýjandi í ljósi breyttra forsendna frá því sem lagt var upp með, og heilbrigðisáætlun bíður umræðu, svo að dæmi séu tekin. Menn minnast þess kannski að Ríkisendurskoðun gerði leit að heilbrigðisáætlun fyrir landið og kom tómhent úr þeim leiðangri. Hún reyndist ekki fyrirfinnast. Það er því ákaflega brýnt að sú heilbrigðisáætlun sem hefur verið unnin fái umræðu hér.

Staðan er sú, herra forseti, að við ræðum hér mál, þennan þriðja orkupakka, sem er algerlega vanreifað af hálfu ríkisstjórnarinnar. Við Miðflokksmenn höfum sýnt fram á það málefnalega og ítarlega í málflutningi okkar að málið er á mörkum þess að geta talist þingtækt. Það vantar grundvallargögn í þessu máli. Það vantar lögfræðilega greiningu á þeirri leið sem á að fara með þessum svokallaða fyrirvara sem gufaði skyndilega upp síðdegis, upp úr kl. fjögur, 15. maí sl. Það vantar alla greiningu á reynslu Norðmanna og svo mætti áfram telja.

Menn sjá það líka, af þeim greinum sem hv. þingmenn eru að skrifa hérna, litla pistla, að menn hafa það hver eftir öðrum og fullyrða gagnvart blaðalesendum að orkupakkinn muni stuðla að lægra raforkuverði í landinu og annað eftir því. Menn sjá í hvaða ógöngum þetta mál er. Auðvitað væri ríkisstjórninni sæmst að taka málið til baka og fresta því.