149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:52]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni kærlega fyrir andsvarið. Ég verð að segja það eins og er að ég gæti vart verið meira sammála. Málið er á mörkum þess að vera þingtækt svo að ekki sé fastar að orði kveðið. Hér vantar mikið upp á, eins og orðið hefur bersýnilegt í fjölmörgum ræðum hér og líka í viðbrögðum fólks úti í samfélaginu.

Fólk telur að verið sé að ganga mun lengra en hægt sé. Þessi lögfræðilega greining, sem hv. þingmaður kom inn á í andsvari sínu, er þess eðlis að lögfræðingar og fræðimenn hafa gefið því gaum að sú leið sem valin er sé raunverulega ekki fær. Auðvitað passa þeir sig á því að blanda sér ekki í pólitíkina, þ.e. í stjórnmálin, sem fylgir umræðu um svona mál. En ég tel að það sé alveg skýrt að þeir hafi lagt það fyrir að þessi ákvörðun, þessi leið, sé vandkvæðum bundin og það sé hreinlega ekki hægt að óbreyttu að fara þessa leið þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi valið að gera það.

Rökstuðningurinn sem fylgir þessu heldur ekki vatni, hæstv. forseti. Við höfum sýnt fram á það, með efnislegum og málefnalegum rökum, að þessi leið er sú leið sem ekki hefði átt að velja. Hér höfum við rétt út sáttarhönd og ég tek undir það með hv. þingmanni að ríkisstjórninni væri sæmst að taka málið aftur til sín og endurskoða hug sinn í þessu máli.