149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:58]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil gera að umtalsefni mjög athyglisverða grein, nýlega, sem birtist í DV eftir Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, þar sem hann ræðir um orkupakkana og yfirskrift greinarinnar er: Óheillaþróun. Frá orkupökkum ESB til HS Orku.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Í umræðum um orkupakka þrjú er oft sagt að hann skipti litlu máli á meðan ekki er lagður strengur til orkuútflutnings frá Íslandi til Evrópu.“

Og áfram:

„Þetta er villandi málflutningur.“ — sem er athyglisvert orðalag í þessu — „Orkupakki þrjú er hluti af lengri tíma þróun skipanar orkumála, sem einkum stefnir að aukinni markaðsvæðingu og einkavæðingu opinberra orkufyrirtækja. Þetta er meðal annars fært í þann búning að um sé að ræða aukna samkeppni sem styrki stöðu heimila og fyrirtækja, sem eigi svo að koma fram í betri og ódýrari þjónustu.

Sá hængur er þó á þessari stefnu Evrópusambandsins að einkum er um að ræða gervisamkeppni, sem mun litlum ábata skila til neytenda. Verðhækkanir á orku til almennings eru líklegasta afleiðingin hér á landi.“

Ég held að höfundur hafi þarna hitt naglann nákvæmlega á höfuðið.

Hann talar um gervisamkeppni sem skili litlum ábata til neytenda. Það er nákvæmlega það sem gerst hefur á Íslandi. Hér hafa þingmenn, einkum og sér í lagi stjórnarþingmenn úr Sjálfstæðisflokki en einnig þingmenn Viðreisnar — ég nefni Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sem hefur haldið því hér á lofti að að þessi virka samkeppni sé svo mikilvæg og neytendaverndin og í því felist lægra orkuverð til neytenda vegna þess að þeir geti skipt um orkusala. Það er nákvæmlega það sem gerist í þessu að það skilar nánast engum ábata. Það höfum við séð með skýrslu sem verkfræðistofan EFLA hefur gert. Ég nefndi fyrr í þessari umræðu að af 140.000 heimilum skiptu 370 um orkusala eða 0,3%, þannig að þetta er ekki að skila neinum ábata. Þetta er gervisamkeppni eins og greinarhöfundur, Stefán Ólafsson prófessor, nefnir réttilega í þessu.

Síðan heldur hann áfram í þessari grein sem er mjög athyglisverð. Hann segir, með leyfi forseta:

„Hins vegar er mikil ágóðavon falin í þessari stefnu fyrir einkafjárfesta sem fá tækifæri til að eignast hluti í opinberum orkuveitum.“

Og það gerðist. Það gerðist hér suður með sjó þegar Hitaveita Suðurnesja var einkavædd.

Áfram segir:

„Þegar tilskipun ESB um nýja skipan orkumála frá 1997 var innleidd í lög á Íslandi með raforkulögum árið 2003 voru flestir forsvarsmenn raforkufyrirtækja landsins þeim andvígir.

Helstu rökin gegn þessari breytingu voru þau, að samlegðaráhrif myndu tapast, m.a. með tvöföldun yfirbygginga orkufyrirtækja, sem leiddi til aukins kostnaðar og hærra verðs fyrir notendur orkunnar.“

Þetta gerðist nákvæmlega, t.d. suður með sjó. Sama fyrirtækinu, Hitaveitu Suðurnesja, var skipt í tvö fyrirtæki. Það hafði í för með sér aukinn kostnað sem síðan bitnaði á neytendum og þeir báru þann kostnað.

Síðan heldur greinarhöfundur áfram:

„Fyrstu merki hinnar nýju skipanar hér á landi komu fram í kröfum um uppskiptingu opinberra orkuveitna (t.d. Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur).

Mest áberandi í fyrstu var uppskipting Hitaveitu Suðurnesja í HS Orku og HS Veitur.

Síðan komu einkafjárfestar að eign HS Orku, með gleiðbrosandi braskgosann Ross Beaty frá Kanada fremstan í flokki. Hann var sagður hafa ætlað að koma með fé inn í reksturinn — sem reyndist blekking.“

Ég mun halda áfram með þetta hér í framhaldinu og óska eftir því, herra forseti, að verða settur aftur á mælendaskrá.