149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:06]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er honum algerlega sammála í þessu og mér finnst einmitt greinarhöfundur sem ég vitnaði hér í, Stefán Ólafsson prófessor, ná að greina þetta mjög vel í þessum skrifum sínum. Hann talar hér um gervisamkeppni sem muni litlum ábata skila til neytenda. Svo bætir hann við að verðhækkanir á orku til almennings séu líklegasta afleiðingin hér á landi. Þetta gekk allt saman eftir. Hækkanirnar voru víða og um allt land, sérstaklega til húshitunar. Þær voru til fyrirtækja. Það voru sérstakir samningar sem fyrirtæki, mörg hver, gerðu, eins og t.d. bakarameistarar um að kaupa orku á nóttunni, hún væri ódýrari. Það voru ýmsir sérsamningar sem voru í gildi. Þeir voru allir bannaðir með þessum orkupökkum þannig að ég skil ekki hvar ábatinn til neytenda er. Ég skil það bara ekki og skil heldur ekki málflutning stjórnarliða í þessu, að halda þessu statt og stöðugt fram.

Það er ábyrgðarhluti, þegar þeir sjá að við höldum hér uppi öflugum og kröftugum málflutningi gegn því að innleiða þennan orkupakka, að þá birtir hver stjórnarþingmaðurinn af öðrum, einkanlega frá Sjálfstæðisflokknum, greinar í blöðunum þess efnis að þetta sé svo mikil neytendavernd, að við verðum að innleiða þennan pakka, Íslendingar séu að missa af neytendaverndinni, orkuverð lækki o.s.frv. Þetta eru hreint og beint rangfærslur. Það er ábyrgðarhluti að setja þetta svona fram til að slá ryki í augu almennings hvað þetta varðar.

Ég segi, herra forseti: Við þurfum að eiga orðastað við þessa þingmenn hér í þingsal um þessi greinaskrif þeirra og þær rangfærslur sem þeir leggja fram.