149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:08]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er til marks um það hve þessi umræða og málatilbúnaður allur hefur ratað í miklar ógöngur. Hér eru að birtast einhverjir pistlar eftir hina ágætustu þingmenn, vil ég segja, úr stuðningsliði þessa orkupakka sem standast enga skoðun, með órökstuddum fullyrðingum, og ég leyfi mér að segja á köflum stóryrðum, eins og til að mynda í grein hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur sem birtist í Morgunblaðinu í gær. Hún segir að flestum rangfærslum hafi verið svarað og svo ræðir hún um slagorð sem eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. Hefur þetta fólk efni á því að hafa uppi svona stóryrði?

Þetta mál er vanreifað. Það vantar lögfræðilega greiningu á þeirri leið sem ríkisstjórnin hefur kosið að fara. Það vantar greiningu á fjórða orkupakkanum sem bíður handan við hornið.

Það er fráleitt að ætla sér, herra forseti, að fara að samþykkja þennan þriðja orkupakka með þann fjórða í skúffum og uppi á skrifborðum í stjórnardeildum og hjá atvinnuvegasamtökum — alls staðar nema hjá þingmönnum að sjálfsögðu. Það þarf að fara yfir reynslu Norðmanna sem beittu sér fyrir einum sex eða átta, líklega átta, fyrirvörum sem ekkert hefur verið gert með. Þetta mál er vanreifað, ekki þingtækt. Ríkisstjórninni ber að kalla þetta mál aftur.