149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:11]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni, mál þetta er vanreifað á fleiri en einu sviði. Í fyrsta lagi, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega, hvað varðar þessa fyrirvara og ekki síst er það vanreifað þegar kemur að áhrifum orkupakka þrjú gagnvart neytendum í landinu, heimilum og fyrirtækjum.

Við sjáum garðyrkjuna sem dæmi, mjög mikilvæga atvinnugrein sem framleiðir frábæra vöru á heimsmælikvarða og tækifærin eru þar gríðarleg. Í gær var hér í þingsal sérstök umræða um garðyrkjuna og tækifæri sem liggja í henni. Frummælandi var hv. þm. Ásmundur Friðriksson, og umræðan var mjög þörf og góð. Á sama tíma erum við að fara að innleiða hér orkupakka sem getur hreinlega gengið af þessari atvinnugrein dauðri, hvorki meira né minna. Hagsmunasamtök þessara aðila hafa lýst þungum áhyggjum yfir þessum áformum ríkisstjórnarinnar.

Það er rétt, hv. þingmaður, þetta mál er vanreifað á mörgum sviðum. Það er fullkomlega eðlilegt að fresta því og fara í þá nauðsynlegu vinnu sem þarf að fara í. Yfirlýsingar formanns utanríkismálanefndar, hv. þm. Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, um að öllum spurningum hafi verið svarað, að málið hafi verið rætt í þaula o.s.frv., standast engan veginn. Ég lýsi undrun minni á því að slíkar yfirlýsingar skuli settar fram.

Margt fróðlegt hefur komið fram í þessum umræðum hér í þingsal, sem nú hafa staðið alllengi, og fyrst og fremst af hálfu okkar Miðflokksmanna. Það er eins og aðrir þingmenn hafi ekki nokkurn áhuga á að taka þátt í umræðunni og þeir vita sjálfsagt ekkert um hvað hún snýst.