149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:13]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég hef í þremur síðustu ræðum mínum farið í örstuttu máli yfir sögu virkjana hér á landi. Svo sannarlega, herra forseti, var þar um stutt ágrip að ræða og margt þar sem mætti tiltaka miklu nánar og mörgu var sleppt. Þarna stiklaði ég einungis á stóru. Ég gerði þetta þar sem ég tel að við getum margt lært af sögunni og þá helst hvernig saga rafvæðingar og byggingar virkjana tengist mjög framförum í landinu og atvinnuuppbyggingu og er í raun langsamlega besta byggðastefnan.

Ég hafði nefnt í fyrri ræðum mínum að allt frá því nýting þessara orkugjafa hófst hér á landi, þegar menn fóru að virkja bæjarlæki og önnur slík fallvötn um aldamótin 1900, voru þar áberandi ýmsir frumkvöðlar eins og Bjarni Runólfsson í Hólmi í Skaftafellssýslu og Jóhannes Reykdal í Hafnarfirði. Ég hafði ekki nefnt að einn af frumkvöðlum þessa var Vestur-Íslendingurinn Frímann B. Arngrímsson en hann átti eflaust eitt sérstæðasta lífshlaup af sínum samtíðarmönnum. Hann fæddist í Hörgárdal 1855 og fluttist til Vesturheims 1874 með fyrsta stóra hópnum af Norðurlandi. Frímann aflaði sér háskólamenntunar fyrstur Vestur-Íslendinga og vann við kennslu og framfaramál í Kanada. Hann stofnaði m.a. blaðið Heimskringlu í Winnipeg 1886 og var hvatamaður til stofnunar íslensks menntaskóla og stuðnings við Ísland, sem ýmis áföll dundu yfir á þeim árum. Síðar fluttist Frímann til Bandaríkjanna og fékk þar mikinn áhuga á því að koma til leiðar rafvæðingu Íslands með hvítu kolunum, sem hann kallaði svo, þ.e. vatnsaflinu. Kom Frímann hingað tvær ferðir þeirra erinda 1894 og 1895, en talaði fyrir daufum eyrum flestra. Aldarfjórðungsbið varð á því að virkjun vatnsfalla hæfist að ráði á Íslandi. Vildi Frímann kenna lítinn árangur sinn því að hann stóð einn, fátækur og ættlítill, gegn íhaldssemi landa sinna og hagsmunum kolakaupmanna. En einnig er greinilegt af heimildum að áætlanir hans þóttu jafnvel bjartsýnustu mönnum óraunsæjar.

Herra forseti. Saga orkumála um aldamótin 1900 felur m.a. í sér merkilegar hliðar á samspili milli einkaframtaks annars vegar og ríkis og sveitarfélaga hins vegar. Svo virðist sem einkaframtak bænda og annarra smærri aðila hafi orðið fyrra til en ríkisvald eða sveitarfélög til að nýta sér þessa nýju tækni sem átti eftir að reynast Íslendingum svo vel sem raun ber vitni. Sagan er einnig áhugaverð frá sjónarhóli byggðamála og byggðaþróunar, t.d. vegna þess að Reykvíkingar urðu á þessum árum höndum seinni í rafvæðingunni. Þar veðjuðu menn á annan hest, gasið, sem reyndist síðan ekki henta hér á landi.

Ég hef verið að fletta umsögnum í þessu máli, sem eru u.þ.b. 50, og hef tekið eftir ákveðnum tilhneigingum í þeim. Það má flokka umsagnaraðila sem einstaklinga, opinberar stofnanir, samtök atvinnurekenda, samtök orkufyrirtækja og sveitarfélög, þannig að þetta eru nokkrir flokkar. Ég hef tekið eftir því að langflestir einstaklingarnir eru neikvæðir gagnvart þessari þingsályktunartillögu. Flest sveitarfélögin gjalda mikinn varhug við því að innleiða þessar orkutilskipanir sem við köllum þriðja orkupakkann, og hafa efasemdir um valdframsal sem í því getur falist og óttast hækkun raforkuverðs. Orkufyrirtækin eru flest hver jákvæð. Ég spyr mig eftir að hafa rennt stuttlega yfir þetta: Er ekki verið að hlusta? Er ekki verið að hlusta á fólkið í landinu? Mér býður svo í grun þegar einstaklingarnir eru á móti þessu, sveitarfélögin gjalda varhug við þessu, en opinberar stofnanir og fyrirtæki eru jákvæð gagnvart þessu.