149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:19]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir hans ræðu, sem var hin athyglisverðasta. Það eru kannski tvö atriði í henni sem ég vildi staldra við. Annars vegar er það hin sögulega sýn á uppbyggingu raforkukerfisins hér á landi með sérstakri áherslu á frumherja í árdögum í því efni, hún markaðist mjög af einkaframtaki einstaklinga. En auðvitað varð þróunin síðar sú að við eignuðumst stóra stofnun, Landsvirkjun, og raforkuframleiðsla og dreifing raforku varð mestan part í eigu opinberra stofnana, þ.e. í eigu almennings hér á landi. Það er mjög ólíkt því sem gerist og gengur á hinum evrópska orkumarkaði sem þessir orkupakkar eiga að ná utan um og er ætlað að skapa umgjörð utan um.

Hitt atriðið sem ég vildi gjarnan staldra við í ræðu hv. þingmanns er greining hans á þeim umsögnum sem liggja fyrir um þetta mál. Hann hefur flokkað þær í eina fjóra flokka sýnist mér, þ.e. einstaklinga, fyrirtæki, atvinnufyrirtæki, orkufyrirtæki og síðan opinberar stofnanir. Ég hef áður í þessum ræðustól vakið máls á því, og spurt að því hversu eðlilegt það sé, hvernig opinberar stofnanir, sem lúta lýðræðislegu valdi, finni sig í því að tjá sig um þjóðfélagsmálefni eins og þær hafi einhverja sérstaka skoðun, rétt eins og að þar væru stjórnmálamenn í því hlutverki (Forseti hringir.) að taka ákvarðanir eða kjósendur í því hlutverki að velja fólk til að taka ákvarðanir á sínum vegum. (Forseti hringir.) Þetta virkar svolítið sérkennilega á mig og ég vildi gjarnan heyra viðhorf hv. þingmanns í því efni.