149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:23]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Auðvitað er það mjög vel skiljanlegt að þeir sem eiga að búa við afleiðingar af innleiðingu þessa orkupakka láti í sér heyra. Það eru sérstaklega einstaklingar, heimilin og atvinnufyrirtækin sem hafa a.m.k. til þessa notið góðs af því samkeppnisforskoti sem hið tiltölulega lága raforkuverð á Íslandi hefur skapað þeim. Það að opinber stofnun fari að lýsa því sem einhverju sjálfstæðu áliti á tilteknu máli virkar nánast eins og spaugsemi í mínum eyrum. Hvernig er hægt að búast við því að opinber stofnun — ef hún á annað borð lýsir einhverri skoðun eða áliti, þá hlýtur hún að lýsa áliti sem fer saman við þá skoðun sem ráðherra málaflokksins hefur og þá stefnu sem hann hefur í málinu á hverjum tíma. Það er náttúrlega ekki við öðru að búast. Það er eins og hver önnur firra að halda því að fólki að það hafi einhverja þýðingu að þessi eða hin opinbera stofnunin hafi einhverja sérstaka skoðun og ætlast til að fólk geri eitthvað með slíkar upplýsingar.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að varpa því ljósi sem hann gerir á þetta mál með því annars vegar að rekja orkumálin í sögulegu tilliti, eins og hann hefur gert hér í nokkrum ræðum, og sömuleiðis að greina þessar umsagnir. Það mætti örugglega greina þær nánar. En meginlínurnar, eins og hann hefur teiknað þær upp, eru mjög skýrar.