149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:32]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir svarið. Það er auðvitað svo að vissulega vekur það athygli, og tökum sem dæmi, ef undirstofnun menntamálaráðuneytisins leggst ákveðið gegn frumvarpi menntamálaráðherra og sama mætti segja um aðrar stofnanir, aðrar undirstofnanir, annarra ráðherra í ríkisstjórn.

En það er þannig, og ég er sammála hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni hvað það varðar, að vægi umsagna mætti að ósekju skoða svolítið með hliðsjón þegar ekki er bara verið að gera ábendingar um einhver lagatæknileg atriði heldur þegar raunveruleg pólitík og efnisatriði eru tekin til skoðunar. Og þá ættu að mínu mati, og ég spyr hv. þingmann hvort það horfi eins við honum, umsagnir utanaðkomandi aðila, frá sjálfstæðum fyrirtækjum á markaði eða einstaklingum eða sambærilegum aðilum að fá sérstaka athygli, því að hitt í rauninni skilur okkur eftir á þeim stað að við fáum meira af því sama, meira af færibandinu upp, sérstaklega í þessum innleiðingarmálum, þar sem pólitískar skoðanir virðast fá mjög lítið svigrúm. Ég þori ekki að segja að það fari sífellt minnkandi en upplifun mjög margra er að það sé lítið.