149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:34]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir athugasemdir hans. Já, en að þeim orðum sögðum hjá mér áðan varðandi það að menn væru að skrifast á við sjálfa sig, þá eru oft að sjálfsögðu vinsamlegar ábendingar í þeim umsögnum um það sem betur mætti fara á fremur lágstemmdum nótum. Og auðvitað eru oft vel þegnar vel rökstuddar leiðréttingar og algengt að um það sé að ræða. En minna um svona stefnumarkandi umsagnir sem fari í bága við stefnu stjórnvalda, ég er að meina það. Það er fremur fréttnæmt myndi ég telja og kannski eðlilegt að menn séu ekki að setja sig harkalega á móti stefnu stjórnvalda.

Þess vegna hef ég spurt mig í þessu máli þar sem mikill fjöldi einstaklinga lagði fram umsagnir, herra forseti, að langflestar eru afar neikvæðar og fjöldi þeirra umsagna er frá einstaklingum sem eru sérfræðingar á sviði virkjunarmála, orkumála og rafmagnsverkfræði o.s.frv. Þetta fólk sendi oft og tíðum afar ítarlegar umsagnir í málinu. Þess vegna orðaði ég það svo í fyrra andsvari að þessum umsögnum ásamt umsögnum frá fyrirtækjum og sveitarfélögum er svona svipt af borðinu og ekki er verið að hlusta eftir skoðunum og ábendingum um að gjalda varhug við þessu máli og fara þá augljósu leið, (Forseti hringir.) sem er sú að leita eftir undanþágu á þeim (Forseti hringir.) stað sem við höfum samningsbundinn rétt til að leita til, þ.e. sameiginlegu EES-nefndarinnar.