149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:42]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni kærlega fyrir ræðuna. Hann rifjaði upp fyrir mér þau orð sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir hafði látið falla um álit Baudenbachers, þau hafi verið á þá leið að þetta mál væri ekki af því tagi eða tilefni til að grípa til slíkrar neyðarráðstöfunar, sem væri að vísa málinu aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Það er kannski búið að fara ítrekað yfir þetta, en ég finn mig knúinn til að nefna það í þessari ræðu hvað felst í 102. gr. og reyndar fleiri greinum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið þegar kemur að slíkum álitamálum. Ég get farið í það ítarlega og lesið upp úr þeim greinum ef vilji stendur til þess. Það er engin tilvísun í það að þetta sé einhvers konar neyðarráðstöfun af nokkru tagi, heldur akkúrat öfugt, að þetta sé hinn eðlilegi farvegur máls. Ég hef ekki séð eða kynnt mér almennilega orðalagið í áliti þessa manns. Ég verð eiginlega að gera það núna og taka af allan vafa um að þetta sé svona.