149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:44]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir andsvarið. Ég verð að viðurkenna að mér þykir hv. þingmaður sem hér hefur verið vitnað til og ritaði grein í Morgunblaðið, sem er út af fyrir sig afar þakkarvert, nálgast málið af svolitlu gagnrýnisleysi. Hún fjallar einmitt um og hefur eftir doktor Baudenbacher að þriðji orkupakkinn sé ekki mál af því tagi að réttlætanlegt sé að grípa til neyðarráðstafana.

Bíddu, hvaða mál, ef þetta væri nú yfir höfuð neyðarráðstöfun, sem þetta er ekki heldur bara samningsbundin leið, ætti að vera af því tagi að það mætti nota neyðarhemil? Hér er verið að tala um og farið fram á það við Íslendinga að þeir afsali sér forræði yfir orkuauðlindum sínum, a.m.k. ef marka má hina lögfræðilegu ráðunauta ríkisstjórnarinnar, Friðrik Árna Friðriksson Hirst og Stefán Má Stefánsson, sem segja að erlendar stofnanir muni fá a.m.k. óbein áhrif, á hvað? Á skipulag. Á ráðstöfun orkuauðlinda Íslendinga.

Hvaða mál væri af því tagi frekar en þetta sem mætti fara með þessa leið. Þetta er nákvæmlega mál af því tagi að hér rekast á mjög miklir hagsmunir þjóðarinnar í því sambandi sem hér hefur verið fjallað um, þannig að þetta er mjög skrýtið. Síðan er náttúrlega fullkomlega gagnrýnislaust haft eftir doktor Baudenbacher í grein hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur að það gæti teflt aðild Íslands að EES-samningnum í tvísýnu verði þriðja orkupakkanum hafnað. Hvar á slík fullyrðing sér stoð í þeirri lagaumgjörð sem er utan um þennan samning? Hvar er það í samningnum sem gæti réttlætt slíka fullyrðingu? (Forseti hringir.) Það náttúrlega algjörlega gagnrýnislaust að taka þetta upp og það getur varla verið annað en að (Forseti hringir.) maðurinn hafi haft um þetta einhverjar nánari útlistanir.