149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:52]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða ræðu. Það var margt merkilegt sem kom þar fram, m.a. hvernig hann greinir álitsgerð Baudenbachers sem utanríkisráðuneytið fékk til liðsinnis við sig. Það verður nú að segjast eins og er að þessar yfirlýsingar Baudenbachers koma manni svolítið spánskt fyrir sjónir í þeirri vinnu sem hann vann fyrir ráðuneytið og ráðherra, sérstaklega þegar hann víkur að þessum neyðarhemli. Nú er ég ekki með lögfræðilega kunnáttu, herra forseti, en setjum sem svo að í samningnum væri eitthvað sem héti neyðarréttur. Þá þyrfti væntanlega að skilgreina það sérstaklega hvað félli undir neyðarrétt, þann neyðarhemil sem Baudenbacher nefnir þarna. Þarna er komið hugtak sem hvergi er að finna í þessum samningi.

Maður veltir fyrir sér, og ég tek undir með hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni hvað það varðar: Var línan lögð áður en vinna við álitsgerðina hófst? Var línan lögð af hálfu ráðuneytisins hvað þetta varðar? Vegna þess að það kemur mjög á óvart að menn geti búið til svona hugtak sem hefur mjög mikla og djúpa merkingu þegar kemur að samningamálum, en það er hvergi að finna í samningnum (Forseti hringir.) sjálfum. Gæti hv. þingmaður komið aðeins nánar inn á það, sem (Forseti hringir.) hann gerði reyndar vel hér í ræðu áðan?