149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:54]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir andsvarið. Ég er einn af þeim sem hvað mest hafa kallað eftir því að lagðar væru fyrir Alþingi lögfræðilegar álitsgerðir um þá leið sem ríkisstjórnin boðar að fara í þessu máli, þ.e. að innleiða þriðja orkupakkann, en með svokölluðum lagalegum fyrirvara sem ekki hefur verið skýrður með fullnægjandi hætti. Það er út af fyrir sig ágætt að kalla til erlendan sérfræðing, en það kom á daginn að það sem hann hafði helst til málanna að leggja voru pólitískar hugleiðingar. Það er ekki það sem vantar. Það vantar grjótharða lögfræðilega greiningu á þýðingarmiklum þáttum í þessu máli. Það vantar engar pólitískar hugleiðingar eða vangaveltur eða bollaleggingar fram og til baka sem sýnast svo vera að verulegu leyti órökstuddar. Það hefur til að mynda ekkert spurst til rökstuðnings varðandi það að þetta ákvæði sé neyðarákvæði. Og það hefur ekki spurst til skýringa á því af hverju það að beita því myndi tefla aðild Íslands að hinum evrópska markaði í einhverja tvísýnu. Þannig að við erum í sjálfu sér engu nær þrátt fyrir sverar fullyrðingar. Okkur vantar ekki þetta.

Ég ítreka því óskir mínar um að hér verði lagðar fyrir fullnægjandi álitsgerðir, lögfræðilegar álitsgerðir, þar sem þessir þættir málsins eru greindir og það með fullnægjandi hætti, herra forseti.