149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:56]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég tek undir að það þarf að fá nánari útskýringar á þessu. Hér er þessu háttað þannig að þessi álitsgjafi, sem ríkisstjórnin metur mjög mikils, og ég efa það ekki að maðurinn hefur gríðarlega reynslu — en það læðist að manni sá grunur að ákveðin lína hafi verið lögð. Ríkisstjórnin fékk þennan mann í álitsgerðina. Maður spyr sjálfan sig: Hvað hefði ríkisstjórnin gert ef álitið hefði verið á þann veg að það hefði ekki verið ríkisstjórninni þóknanlegt? Segjum að álitsgerðin hafi bara gengið út á það að við ættum að vísa málinu strax til sameiginlegu EES-nefndarinnar eða hafna þessum pakka algerlega? Hvernig hefði ríkisstjórnin þá brugðist við?

Eins og hv. þingmaður nefndi eru pólitískir þættir í álitinu. Búin eru til tvö veigamikil atriði, þ.e. neyðarhemillinn sem álitsgjafinn talar um en sem er hvergi minnst á í samningnum. Hvergi. Það kemur mér mjög spánskt fyrir sjónir, herra forseti, að hægt sé að álykta sem svo að það sé einhver neyðarhemill í samningi þegar hvergi er minnst á hugtakið neyðarhemil í samningnum.

Það verður náttúrlega að rökstyðja þann pólitíska vinkil sem álitsgjafinn tekur, að þetta muni stofna samningnum í uppnám. Ég sé hvergi haldbær rök fyrir því hvað gæti valdið þessu uppnámi. Þetta er bara samningur milli tveggja aðila sem hafa rétt til að fara með þetta fyrir nefnd sem hefur það hlutverk að ná sáttum. Þannig að það er margt sem (Forseti hringir.) er ósvarað í álitsgerðinni og þarfnast nánari skýringar við.