149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:59]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla leiða fram vitni í málinu sem var á staðnum og bar öðrum mönnum meiri ábyrgð á því að Íslendingar gerðust aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Vitnið var forsætisráðherra á þeim tíma sem þetta gerðist, Davíð Oddsson, og tel ég öruggt að hann hafi ritað þann texta sem er að finna í Reykjavíkurbréfi í Morgunblaðinu 11. maí síðastliðinn. Með leyfi forseta, ætla ég að gefa vitninu, Davíð Oddssyni, orðið í umfjöllun um þau ummæli um að hér sé eitthvert neyðarákvæði. Vitnið, Davíð Oddsson, segir, í Reykjavíkurbréfi 11. maí, með leyfi forseta:

„Nauðsynlegt er að fara rækilega yfir það, hvort nokkur maður hafi sagt við umræður um EES-samninginn, að vildu Íslendingar einhverju sinni nota þann rétt sinn til að hafna innleiðingu tilskipana sem þeim hentaði ekki, þá myndi sá samningur riða til falls. Hér skal fullyrt“, skrifar Davíð Oddsson í blað sitt, „að þessar hótanir og hræðsluáróður eru ósannindi. Og þó er þessi hótun eina afsökun ríkisstjórnarinnar fyrir því að keyra þetta varasama mál í gegn. Undirbúningur þess er í skötulíki og engum til sóma sem að því kom.“

Hér talar maður sem veit nákvæmlega um hvað hann er að tala. Hann var á staðnum, hann bar öðrum mönnum meiri ábyrgð á málinu, og hann hefur tekið af öll tvímæli um að allt tal um að hér sé einhver neyðarráðstöfun er náttúrlega bara eins og hver önnur bábilja.