149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:01]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Allnokkuð hefur verið rætt um samkeppnisþáttinn í þessum þriðja orkupakka. Hér mun myndast samkeppnisumhverfi og því hefur verið haldið fram með nokkrum rétti að hætta sé á að við vissar kringumstæður verði þess krafist að Landsvirkjun verði skipt upp. Við höfum kerfi í dag sem er þannig uppbyggt að Landsvirkjun er með u.þ.b. 70% markaðarins, Orka náttúrunnar eða Orkuveita Reykjavíkur um 20% og HS Orka og HS Veitur með um 10%. Leitt hefur verið að því líkum að þegar hér koma inn fleiri aðilar, sem eru jafnvel minni eða slaga upp í HS Orku eða eitthvað slíkt, muni þeir á einhverjum tímapunkti segja: Hér er ójafnt skipt. Það er ekki virk samkeppni á markaðnum. Það þarf að skipta upp Landsvirkjun. Er ekki er hægt að láta okkur hafa Sultartangavirkjun eða eitthvað slíkt í okkar hlut? Því hefur oft sinnis verið vísað á bug að þetta sé raunveruleg hætta. En það hefur verið tekið saman hvar í orkupakkanum, þ.e. í greinum hans eða grundvelli, sé hægt að finna þeirri staðreynd stað að skipta þurfi Landsvirkjun upp. Mig langar, með leyfi hæstv. forseta, að fara hér aðeins yfir nokkrar greinar sem gætu orsakað það að skipta þyrfti Landsvirkjun upp.

Í 3. lið í reglugerð 2009/72/EB er kveðið á um, með leyfi forseta:

„Þau réttindi sem sáttmálinn tryggir borgurum Sambandsins — m.a. frjálsir vöruflutningar, staðfesturéttur og frelsi til að veita þjónustu — eru einungis möguleg á markaði sem er að fullu opinn, þar sem allir neytendur geta sjálfir valið sér birgi og öllum birgjum er gert kleift að dreifa frjálst til viðskiptavina sinna.“

Í 8. lið í reglugerð 2009/72/EB er kveðið á um, með leyfi forseta:

„Til að tryggja samkeppni og afhendingu rafmagns á sem samkeppnishæfustu verði skulu aðildarríkin og landsbundin eftirlitsyfirvöld auðvelda aðgengi nýrra afhendingaraðila raforku, með raforku frá mismunandi orkugjöfum, yfir landamæri og fyrir nýja söluaðila í orkuframleiðslu.“

Einnig segir, herra forseti, í 57. lið í reglugerð 2009/72, með leyfi forseta:

„Efling sanngjarnar samkeppni og auðvelds aðgangs að mismunandi birgjum og að stuðla að aukningu í nýrri raforkuframleiðslugetu skal vera forgangsatriði fyrir aðildarríkin til að viðskiptavinir geti notfært sér að fullu tækifæri frjáls innri markaðar á sviði raforku.“

Í 59. lið í reglugerð 2009/72/EB er kveðið á um, með leyfi forseta:

„Þróun raunverulegs innri markaðar á sviði raforku, með net sem tengt er um allt bandalagið, skal vera eitt af helstu markmiðum þessarar tilskipunar og stjórnsýsluleg málefni varðandi samtengingar yfir landamæri og svæðisbundna markaði skulu því vera eitt helsta verkefni eftirlitsyfirvalda, í náinni samvinnu við stofnunina eftir því sem við á.“

Í 60 lið. í reglugerð 2009/72/EB er kveðið á um, með leyfi forseta:

„Að tryggja sameiginlegar reglur fyrir raunverulegan innri markað og fjölbreytt framboð rafmagns sem er aðgengilegt öllum skal einnig vera eitt af helstu markmiðum þessarar tilskipunar. Í því skyni mun rétt markaðsverð vera hvati að samtengingum yfir landamæri og fyrir fjárfestingar í nýrri orkuframleiðslu og um leið leiða til verðsamleitni til lengri tíma.“

Í 3. gr. 1. málsl. í reglugerð 2009/72/EB er kveðið á um, með leyfi forseta:

„Aðildarríkjunum ber að tryggja, á grunni skipulags stofnana sinna og með viðeigandi tilliti til nálægðarreglunnar, að raforkufyrirtæki séu rekin í samræmi við meginreglur þessarar tilskipunar, með fyrirvara um 2. mgr., til að koma á öruggum og umhverfislega sjálfbærum samkeppnismarkaði á sviði raforku, og að fyrrnefndum fyrirtækjum sé ekki (Forseti hringir.) mismunað að því er varðar réttindi eða skyldur.“

Svo mörg voru þau orð. (Forseti hringir.) Þetta er upplestur á því hvernig hægt er að skipta Landsvirkjun upp eða hvernig væri jafnvel hægt að krefjast þess.