149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:07]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nokkuð merkilegt sem hér kom fram, þ.e. þessi uppskrift sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson las upp. Þessi uppskrift er svo fullkomin að það er engu lagi líkt. Við höfum nokkrum sinnum á undanförnum klukkustundum komið inn á það að við sjáum fyrir okkur að Landsvirkjun verði skipt upp. Mig langar að velta þessu aðeins meira fyrir mér. Ég gríp niður í umsögn sem Ögmundur Jónasson sendi en hann sér fyrir sér hvernig verið er að markaðsvæða orkuauðlindir hér á landi. Það miðar allt í eina átt. Ögmundur segir, með leyfi forseta:

„Í þessari stuttu umsögn vil ég leggja áherslu á félagslegar forsendur málsins og vara við því að einblína um of á þennan tiltekna pakka heldur skoða þá vegferð sem Evrópusambandið boðaði um miðjan tíunda áratug síðustu aldar um markaðsvæðingu raforkunnar. Alltaf hefur legið ljóst fyrir hvert vegferðinni er heitið og eru orkupakkarnir svokölluðu aðeins vörður á þessari leið sem mun enda í samræmdu evrópsku raforkukerfi sem starfar á markaðsvísu undir miðstýrðu eftirliti.“

Hér held ég að verið sé að sýna fram á ákveðna vegferð sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson greip svo áfram með því að bera það upp hvernig Landsvirkjun verður bútuð niður, allt gert til þess að þóknast þessu miðstýrða valdi Orkustofnunar Evrópu. Og ég vil aðeins fá betri sýn inn í frekara framhald frá hv. þingmanni.