149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:09]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef áður líkt þessum orkupökkum, þ.e. eitt til þrjú, og bráðum fjögur og fimm, við það að okkur sé gefið inn í teskeiðum eða smáskömmtum. Við erum ekki slegin út af með einu höggi heldur er leitast við að leiða okkur áfram á þessari vegferð.

Það er alveg rétt að í upphafi vegar eða mjög fljótt í þessu ferli var orka, sem við Íslendingar höfum ávallt litið á sem auðlind, skilgreind sem vara. Hún var skilgreind sem vara til þess að hægt væri að markaðsvæða hana. Þetta var gert á sínum tíma út af sérstökum aðstæðum sem þá voru í Evrópusambandinu, m.a. í Þýskalandi. Þar voru yfirburða einkarekin orkufyrirtæki, svona nokkurs konar Hagar í raforkuframleiðslu í Þýskalandi, og þýsk samkeppnisyfirvöld og evrópsk, samevrópsk, sáu sér þann kost vænstan, eða nauðsynlegastan, að reyna að brytja þessi fyrirtæki niður til að jafna „samkeppni“ þeirra í milli.

Þarna erum við að tala um gjörólíkan þátt vegna þess að hér á Íslandi höfum við hingað til litið svo á að orkuauðlindir séu sameign þjóðarinnar, eða eigi að vera í opinberri eigu. Þess vegna var það ákveðið áfall á sínum tíma þegar HS Orka fór tímabundið í eigu skúffufyrirtækis í Svíþjóð sem átti síðan heimilisfang í Kanada og endaði með því að sá sem keypti á sínum tíma, stálheppinn, tífaldaði sinn hlut á tíu árum eða þar um bil, allt á kostnað raforkukaupenda hér heima. Það er kannski slíkt ástand sem við viljum forðast.