149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:11]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Það er einmitt þetta sem allt miðar að, þ.e. að hugsa um orkuauðlindir okkar sem vöru. Markaðurinn á að ráða og hæstbjóðandi mun vinna það stríð ef svo má að orði komast. Ég held mig við Ögmund Jónasson og hans umsögn, með leyfi forseta:

„En það er lokamarkið sem þarf að horfa á — vegferðina alla — og það er markaðsvæðing og í kjölfarið einkavæðing þessa geira. Samhliða markaðsvæðingunni er síðan ætlunin að tryggja hlut almennings með neytendavernd og refsingum ef samkeppnisskilmálum er ekki fullnægt. Með öðrum orðum allt traust er sett á markaðinn og mekanisma hans.“

Þá koma til aðilar, svokölluð skúffufyrirtæki eins og hv. þingmaður lýsti áðan, og það er ekkert óeðlilegt að við munum sjá enn fleiri slíka aðila koma að borðum. Þá munum við ekkert geta spyrnt við fótum. Þá verðum við bara að kyngja því sem fyrir okkur er lagt. Þess vegna enn og aftur: Við eigum að grípa tækifærið núna. Það er núna sem við eigum að setja þetta til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Er ekki hv. þingmaður algjörlega á því að lögmál markaðarins muni ganga framar því sem við viljum telja að sé eðlilegt, þ.e. að við höldum okkar fyrirtækjum í okkar eigu?