149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:13]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst segja: Þetta er afbragðsandsvar sem ég þakka fyrir. Það eru svo mörg rauð ljós sem kvikna þegar texti eins og sá sem ég var með hér áðan er lesinn, ekki síst þegar manni flýgur í hug vilji nokkurra forustumanna Sjálfstæðisflokksins, sem hefur birst opinberlega, um að rétt sé að selja Landsvirkjun, eða selja hluta í Landsvirkjun. Það hefur verið sagt: Jú, þetta er alveg úrvalsfjárfestingartækifæri fyrir lífeyrissjóðina. Hvernig á svo að fara með það þegar lífeyrissjóðirnir kjósa að innleysa hagnað sinn og selja? Hver er kaupandinn þá, herra forseti?

Þetta mál er eins og hliðið að því að geta framkvæmt þessa stærstu drauma, langstærstu drauma, sumra Sjálfstæðismanna. Það er ekki efnilegt þegar slíkt er gert. Það er yfirleitt þannig þegar Sjálfstæðismenn og mestu frjálshyggjupostular í þeim flokki hafa viljað einkavæða eitthvað og komast að eins og svín að trogi að þá velja þeir yfirleitt „erfiðustu verkefnin“. Þeir vilja reka Fríhöfnina í Keflavík og þeir vilja eignast hlut í Landsvirkjun. Það hefur enginn boðist til að reka heilsugæslustöðina á Patreksfirði, svo að ég nefni dæmi. Menn finna lykt af bráðinni og þá flykkjast þau dýr að sem finna blóðlykt og vilja gjarnan „blóði væta góm“, eins og þar stendur. En það er ekki það sem við viljum. Við viljum halda þessum fyrirtækjum okkar í þjóðareign.