149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:18]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það sem rak mig í að skoða þessa reglugerð, 72/2009, var kannski það að hún kom ósköp mikið upp hérna í upphafi vega í þessari umræðu, en umræðan snerist kannski mjög mikið um reglugerð 713/2009 vegna þess að hún er svo augljós. En þessi samantekt er náttúrlega mjög gaumgæfilega gerð vegna þess að þetta liggur svo opið, að mér finnst, og með því að taka þetta inn í þessu tilfelli í einni matskeið en ekki í smáskömmtum, þá erum við í raun og veru að gangast undir þessi skilyrði sem hér koma fram í einu vetfangi. Eins og góður maður sagði einu sinni úr þessum ræðustól: Á einu augabragði erum við að taka þetta allt saman inn í okkar löggjöf og eigum ekki leið út.

Það er kannski það sem við, sem höfum staðið hér þessa vakt undanfarin dægur og áður, höfum verið að vara við vegna þess að það er alltaf verið að segja okkur: Þið viljið eyðileggja EES-samninginn. Því fer fjarri.

Við höfum í góðsemi og í fullri auðmýkt bent á að þegar við erum búin að samþykkja þessa gerð, númer þrjú, orkupakkann, með öllum þessum ranghölum sem hér eru nefndir, þá eigum við enga útleið. Það er ekki hægt að bakka út. Eina leiðin út þá, ef þetta virkar ekki fyrir okkur, er að segja EES-samningnum upp, og það er eitthvað sem ég held að fæst okkar kæri sig um. Þess vegna (Forseti hringir.) höfum við varað við þessu.