149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:25]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Við höfum farið hér nokkuð vítt yfir sviðið. Það sem stendur upp úr hjá mér er að ACER mun miðstýra orkuflutningum, þ.e. ACER mun sjá til þess að orkan verði flutt frá þeim stað þar sem hún er næg og til þess staðar þar sem skortur er. Það verða sem sagt ekki íslensk stjórnvöld sem stjórna því verði orkupakki þrjú innleiddur. Orkupakki þrjú byggir á því að treysta tengslanet í Evrópu og það er gott og vel, en að taka úr sambandi boðvald ríkisstjórnarinnar, þ.e. að ACER muni sjá til þess að orkan verði flutt þaðan sem hún er, til þess staðar þar sem er skortur á henni, vitum við hvernig endar. ACER mun sjá til þess að sæstrengur verði lagður til landsins

Ég kýs að horfa á þetta þannig að við séum ekki aðeins að huga að orðalaginu að sæstrengur verði lagður frá Íslandi heldur að muni ACER sjá til þess að hann verði lagður til Íslands vegna þess að Evrópu vantar hreina orku. ACER-orkustofnunin mun því hafa yfirburðastöðu, nokkurs konar samræmingarvald á þessum sameiginlega evrópska orkumarkaði og sjá til þess að allir séu jafnir. Það mun aðeins þýða eitt hjá okkur; hærra orkuverð. Það sem tengist nefnilega inn í þetta er svokölluð hrein orka sem við höfum hér á Íslandi og það er mikil þörf fyrir hana í Evrópu, ætli Evrópulöndin að standa við það markmið sem þau hafa sett sér um kolefnisminnkun.

Eins og staðan er í dag eru orkuauðlindir okkar hluti af orkukerfinu og eign virkjunaraðila. Þannig að miðstýring ACER, evrópsku orkustofnunarinnar, mun ná yfir þær líka. Eins og ég nefndi áðan stefnir allt í orkuskort í Evrópu. Það gerist samfara lokun mengandi orkuvera fyrir kol og olíu. Og ef Evrópusambandinu á að takast það markmið þarf augljóslega að sækja hreina orku hingað til Íslands líkt og við höfum séð gerast í Noregi.

Það kemur því ekkert sérstaklega á óvart að sá áhugi sé fyrir hendi sem birtist hér með svona augljósum hætti frá Evrópusambandinu því að íslenska orkustofnunin mun vissulega hafa einhverjar valdheimildir en hún mun þurfa að sækja þær til orkustofnunar Evrópusambandsins, ekki til valdhafa hér á Íslandi. Orkustofnun, sú íslenska, mun sitja við hið evrópska borð en án atkvæðisréttar.

Við höfum farið hér yfir það að orkupakki þrjú felur í sér markaðsvæðingu, sem þýðir að ekki verður leyfilegt að greiða niður orku og ekki verður heldur leyfilegt að nýta sér pólitíska stjórn á orkumálum, alla vega ekki íslenska. Markaðurinn mun sjá til þess að orka verði seld hæstbjóðanda, sem útilokar svo aðkomu lýðræðislegra stofnana.

Það er ekkert skrýtið að helsta andstaðan við pakkann komi frá bændum. Þeir gera sér vel ljóst í hvað stefnir. Eins getum við bætt því við hvort ekki myndist skaðabótakrafa hagsmunaaðila á hendur íslenska ríkinu ef við innleiðum þetta ferli á rangan máta.