149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Það hefur í sjálfu sér hvergi komið fram, ekki af hálfu neins fræðimanns eða lögmanns, eða þá að stjórnarliðar, fylgjendur málsins hafi treyst sér til að fullyrða að innleiðingin sem hér er, sú aðferðafræði sem nota á við þessa innleiðingu, þessi meinti fyrirvari og allt það sé það vel úr garði gert að komið sé í veg fyrir hættu á málsókn, þ.e. að einstaklingur, annað ríki, annað fyrirtæki, höfði mál gegn íslenska ríkinu fyrir að innleiða tilskipun með röngum hætti eða fyrir að uppfylla ekki skyldur sínar samkvæmt EES-samningnum með einhverjum hætti.

Þvert á móti hafa menn sagt, þar á meðal þeir tvímenningar sem orða það gjarnan svo að það sé ekkert sem komi í veg fyrir slíkt, að það þurfi ekkert að fullyrða að menn hafi ekki slíkan rétt. Óskýrleiki kallar alltaf á meiri hættu á því að farið sé í málaferli með einhverjum hætti.

Mig langar að spyrja þingmann hvort hún telji ekki fulla ástæðu til að horfa til þess hvort hægt sé með einhverri aðgerð, hugsanlega með því að fresta málinu, að vinna málið betur og tryggja okkur með einhverjum hætti gegn slíkum málshöfðunum. Við sáum hvernig fór fyrir okkur varðandi ófrosna kjötið þar sem við töldum okkur vera í býsna góðum málum. En annað kom í ljós, ekki síst vegna þess að það eru ekki íslenskir dómstólar (Forseti hringir.) sem munu fara með þetta mál.