149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:39]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir aldeilis prýðilega ræðu. Það kristallaðist mjög vel í máli hennar sú lagalega óvissa sem færustu sérfræðingar hafa sagt og haldið fram að fylgdi þeirri aðferð sem stjórnvöld hafa ákveðið að nota við innleiðingu orkupakkans. Þetta kom einnig ágætlega fram í fyrri andsvörum hv. þingmanns sem ég þakka fyrir.

En það er kannski eitt líka sem við þurfum að hafa í huga hafandi verið mötuð á orkupökkum til þessa með teskeiðum, að orkupakki þrjú er ekki endastöð, fjarri því. Ef við ætlum að taka hann upp án þess að hafa raunverulega fyrirvara, án þess að hafa raunverulega leið til þess að geta sótt rétt okkar með einhverjum hætti, þá erum við náttúrlega berskjölduð fyrir því sem á eftir kemur. Mér þykir mjög athyglisvert það sem hv. þingmaður hefur fært fram um mögulega skaðabótaskyldu vegna þess að ég tel að það sé mjög raunveruleg hætta. Þess vegna var aldeilis prýðilegt að hv. þingmaður skyldi einmitt koma fram og reifa þá hættu mjög gaumgæfilega fyrir okkur öll þannig að við vitum hver áhættan er.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún sé þá svona sirka sammála okkur, þeim sem höfum verið að segja það hér, að eftir þá umræðu sem fram hefur farið og verið nokkuð góð, hvort ekki sé ráð að leggja málið til hliðar fram á haustið, (Forseti hringir.) gaumgæfa það betur og ganga betur um það.