149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:45]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni kærlega fyrir spurninguna. Það er nefnilega ekkert sýnt á spilin. Það er dálítið óþægilegt að vita til þess að samtök hér á landi hafi fengið kynningu á orkupakka fjögur. Við höfum ekki séð neitt af þeim pakka eða fengið upplýsingar um hann. Við vitum ekki hver hugmyndafræðin verður áfram. Við vitum það eitt, verði orkupakki þrjú innleiddur, að við munum ekki geta bannað það að sæstrengur verði lagður hingað. Gefum okkur að sú sýn birtist að sæstrengur komi hingað, þá getum við ekki farið að standa í vegi fyrir því vegna þess að ACER mun segja okkur að nauðsynlegt sé að gera það til að standa vörð um þetta frelsi og til að geta staðið fast á því að skilgreina raforku sem vöru og þar með erum við farin að skilgreina orkuauðlindir landsins sem vöru.

Það er ekkert eðlilegt við slíka framtíðarsýn. Ég trúi ekki öðru en að fólk vilji kynna sér málin betur. Því get ég að vissu leyti tekið undir orð hv. þingmanns um að við eigum að fresta málinu ef ekki gengur að taka þá ákvörðun núna að senda orkupakka þrjú fyrir sameiginlegu EES-nefndina. Það er kannski eina vitið að fresta innleiðingu fram til haustsins í það minnsta, því að eins og fram kom í fyrri ræðum í nótt eru umsagnir ekki allar jákvæðar í garð orkupakka (Forseti hringir.) þrjú. Þær eru það fæstar svo það sé sagt.