149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:55]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Leiðirnar eru í sjálfu sér í öllum meginatriðum þær sömu og hafa legið fyrir frá upphafi 2. umr. Það er í fyrsta lagi sú leið að ríkisstjórnin ákveði að taka málið af dagskrá, að þingið hafni því, og senda það til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Það er ein leiðin.

Önnur leið er að forseti taki málið af dagskrá, tímabundið. Þó að formlegu ferli utanríkismálanefndar sé lokið geri ég ráð fyrir að ekkert sé því til fyrirstöðu að setja málið inn til einhvers lags óformlegrar meðferðar, þá utanríkismálanefndar eða einhverrar blöndu sérfræðinga, þar sem aðilar yrðu kallaðir fyrir og m.a. farið yfir þau sjónarmið og þær áhyggjur sem uppi eru varðandi fyrirvarana, svo að því sé haldið til haga.

Þriðja leiðin er sú sem hefur verið lögð upp gagnvart okkur í Miðflokknum, að við verðum látin tala hér þangað til við lyppumst niður. Það er eitthvað sem hæstv. forseti hefur stjórn á með fundarstjórn sinni. Í ljósi þeirra spurninga sem upp eru komnar — ef einhver hefur bent á þetta á fyrri stigum, þá hef ég misst af því — hef ég ekki veitt því athygli að neitt okkar, sem hefur staðið í hinni eiginlegu umræðu, hafi í raun tekið á því atriði (Forseti hringir.) sem snýr að neytendaverndinni, gegnsæinu sem átti að vera svo mikið, þegar (Forseti hringir.) í ljós kemur að það er, að því er virðist, algjört aukaatriði í málunum.