149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:59]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Fyrst vil ég segja við hv. þingmann að samkeppnin og það að geta skipt um birgja er til staðar í dag. Það er minnsta mál að fara þar á milli, það kom inn með fyrsta eða öðrum pakkanum, það hefur ekkert með þennan þriðja orkupakka að gera. En það gerir þetta eiginlega enginn. Innan við 1% landsmanna nýtir sér þessa heimild á ári.

En ég gleymdi einu atriðinu áðan, einum möguleikanum í stöðunni, og það er að taka undir með hæstv. iðnaðarráðherra Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur í viðtali sem hún átti við Morgunblaðið 16. nóvember 2018. Þar útilokar hún ekki frekari frestun orkupakka. Aðspurð um það hvort hægt sé að útiloka frekari frestun málsins svarar hún: Það er aldrei hægt að útiloka neitt um þingmál sem er í vinnslu. — Ég hef takmarkaðan tíma til umráða en áður í þessari sömu frétt er texti sem undirstrikar það að með þessu er átt við að fresta málinu til haustþings 2019.