149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:01]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir ræðuna sem var ansi áhugaverð, bendir okkur á það að hér stappar nærri að fylgjendur orkupakka þrjú hafi hreinlega skautað fram hjá aðalatriði þessa máls í sinni framsögu, rætt mikið um þessa neytendavernd sem svo kannski enginn finnur stað. Hver er þessi neytendavernd? Er hún fólgin í — hverju? Er það í lægra raforkuverði eða er það í því að geta valið að kaupa rafmagn á sama verði og í Evrópu? Er vernd sem felst í því?

Er ekki verið að skauta fram hjá aðalatriðum málsins sem eru — hver? Hagsmunir Íslands, myndi ég segja. Er það ekki aðalmálið? Er það ekki ástæðan fyrir því að við stöndum hér og höngum eins og hundar á roði á þessu máli, að við teljum að það sé verið að varpa hagsmunum Íslands fyrir róða?

Þetta er þverpólitískt mál. Það á ekki að snúast um flokka, engan veginn. Ég geri ráð fyrir því eftir að hafa lesið mig í gegnum lögfræðiálit eða kannski öllu heldur stjórnmálalegt álit Carls Baudenbachers að það hafi hrætt. Þar stappar ansi nærri hótunum og ofríki.

Ég verð að segja, herra forseti, að það á illa við mig að sitja undir slíku ógagnrýndu og mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann samsinni mér í því að það stappi nærri hótunum í þessu áliti Carls Baudenbachers.