149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:03]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Í því samhengi langar mig, þó að ég hafi ekki texta þess pistils fyrir framan mig, að vísa í orð fyrrverandi yfirmanns míns frá því fyrir allnokkru, þáverandi samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssonar, sem sagði í grein í Morgunblaðinu að greinargerð dr. Baudenbachers væri einn allsherjarhræðsluáróður. Ég held að það sé ekki ofsagt því að þar fer grandvar maður og orðvar. Ég held að það sé ágætt að skilja það svar eftir við þeirri tilteknu spurningu.

Varðandi neytendaverndina er heimild almennings til að skipta um orkusala til komin og hefur verið praktíseruð árum saman. Manni sýnist í öllum meginatriðum að verð hafi þróast upp á við, meira að segja umfram vísitölu neysluverðs, á þessu tímabili þannig að umræða um að þetta sé allt í þágu neytenda með það að markmiði að lækka verð til þeirra virðist einhvern veginn ekki hafa náð í gegnum alla innleiðinguna.

Það er mikið talað um frelsi almennings til að velja sér orkusala, bæði í greinargerð frumvarpsins og í nefndarálitinu, en það er bara atriði sem er ekkert nýtt. Það er í gangi og hefur verið praktíserað, en það kom á óvart í umræðunni í nótt þegar kom á daginn hversu fáir nýta sér það ef rétt er að á síðasta ári hafi einungis 370 heimili skipt um orkusala. (Forseti hringir.) Ef ég greip töluna rétt eru um 140.000 heimili í landinu og ég verð að viðurkenna að ég trúi varla að hlutfallið sé svona lágt.