149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:05]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég hef ekki reynt hv. þm. Birgi Þórarinsson að öðru en að fara rétt með í ræðustól og geri ekki ráð fyrir því að orð þingmanns hafi verið þannig meint heldur. (Gripið fram í.) Ég er að segja að ég tek heils hugar undir að tölurnar sem voru nefndar eru sláandi. Ekkert í því sem hefur komið fram í máli stjórnarliða styður það að á því verði einhver breyting, ekki neitt.

Ég held að það sé kominn tími til eftir allar þessar umræður að hér fari að sverfa til stáls í því að nú geri ríkisstjórnin það sem henni væri sæmst, að taka þetta mál af dagskrá, rýna betur í fyrirliggjandi gögn í málinu og taka ákvörðun (Forseti hringir.) um að leita sátta vegna þess að ef þetta verður keyrt í gegn hér í trássi við þing og þjóð er ekki góðs að vænta.